Jólahugleiðingar SFO

Virðing yfir hátíðirnar og allt árið

Hátíðirnar eru tími samveru, gleði og hlýju.
En fyrir marga sem lifa með offitu geta jólin einnig fylgt kvíða, óöryggi og ótta við dómhörku annarra.
Það er nóg að takast á við öll matarboðin yfir hátíðirnar.
Þegar fitufordómar bætast við getur tíminn, sem á að vera notalegur og kærkominn, orðið óþarflega erfiður og jafnvel sársaukafullur.

Fitufordómar eru ekki saklausar athugasemdir.
Geta sært djúpt, skapað skömm og vanlíðan og haft áhrif á sjálfsvirðingu og heilsu.
Orð eins og “ætlarðu virkilega að borða þetta?“ eða “væri ekki kominn tími til að huga að þyngdinni?“ geta virkað sakleysislega fyrir þann sem tjáir sig en fyrir þann sem fær þessar athugasemdir á sig geta þau eyðilagt heila kvöldstund, heil jólaboð eða jafnvel minningar sem annars hefðu verið góðar.

Við viljum minna á að engri manneskju ber skilda að hlusta á óumbeðnar athugasemdir um líkama sinn.
Og enginn ætti að þurfa að mæta í fjölskylduboð með hnút í maganum af ótta við spurningar, glósur eða skammir.

Hátíðirnar eiga að vera tími virðingar.
Tími þar sem við tökum á móti fólki eins og það er án þess að meta verðleika þess út frá líkamsstærð.

Því biðjum við: sýnum kurteisi
Ekki gera athugasemdir um líkama, matarsmekk eða útlit.
Sýnum frekar áhuga á manneskjunni, lífinu hennar og því sem skiptir máli.

Berum virðingu fyrir fjölbreytileika líkamans og bjóðum öllum að njóta samverunnar án skammar eða kvíða.

Fyrir hönd stjórnar Samtaka fólks með offitu (SFO)

Next
Next

Offita á krossgötum