
Lög SFO Samtök fólks með offitu.
1. GR. HEITI
Heiti samtakanna er SFO, samtök fólks með offitu og aðstandendur þeirra. Á ensku heita samtökin The Icelandic Association of People Living With Obesity (SFO).
Félagið starfar samkvæmt lögum nr. 110/2021 um félög til almannaheilla.
2. GR. MARKMIÐ
Meginmarkmið SFO, samtaka fólks með offitu og aðstandenda þeirra, er að veita fólki sem lifir með sjúkdóminn offitu stuðning og fræðslu um sjúkdóminn til að bæta hag þeirra og lífskjör
Önnur markmið:
Fræða félagsfólk, almenning, heilbrigðisstarfsfólk og heilbrigðisyfirvöld um sjúkdóminn offitu til að draga úr fordómum og stuðla að endurbótum á þjónustu við þau sem lifa með sjúkdómnum.
Útbúa fræðsluefni til félagsfólks og heilbrigðisstarfsfólks um sjúkdóminn offitu. Fræðsluefnið er bæði útbúið frá grunni af fagaðilum og þýtt erlent efni.
Halda fræðslufundi, stuðningsfundi og ráðstefnur fyrir félagsfólk, heilbrigðisstarfsfólk og yfirvöld til að efla tengsl þeirra.
Stuðla að bættri þjónustu við fólk með sjúkdóminn offitu og almennt vinna að bættum hag þess.
Að stuðla að því að þau sem lifa með sjúkdómnum offitu fái sömu tækifæri til þess að nýta hæfileika sína, menntun og starfsorku til jafns við önnur og taka virkan þátt í samfélaginu.
3. GR. STARFSEMI
Starfsemi SFO, samtaka fólks með offitu og aðstandenda þeirra er þríþætt:
Ýmis þjónusta og stuðningur við félagsfólk samtakanna um allt land.
Fræðsla um sjúkdóminn offitu.
Vinna að langtímamarkmiðum samtakanna. Starfa með öðrum félagasamtökum hér álandi sem erlendis að sameiginlegum markmiðum og starfa með heilbrigðisstarfsfólki og yfirvöldum að umbótum í þágu fólks með sjúkdóminn offitu og aðstandenda þeirra.
4. GR. AÐILDARFÉLAGAR
SFO, samtök fólks með offitu og aðstandenda þeirra eru öllum opin en eru fyrst og fremst ætluð fólki með sjúkdóminn offitu og aðstandendum þeirra. Félagar geta verið:
Ársfélagar, þau sem greiða árlegt félagsgjald.
Heiðursfélagar, þau sem kjörin eru á aðalfundi eftir tillögum stjórnarinnar.
5. GR. FÉLAGSGJÖLD OG REKSTUR
SFO, samtök fólks með offitu og aðstandendur þeirra eru ekki rekin í hagnaðarskyni. Samtökin eru sjálfstæð samtök rekin með árgjaldi félagsfólks, styrkjum og frjálsum framlögum ásamt ágóða af söluvarningi.
Rekstur félagsins er í höndum stjórnar. Prókúruhafar eru gjaldkeri og formaður. Fjármagni félagsins skal ráðstafað til daglegs rekstrar og tilfallandi verkefna í samræmi við tilgang félagsins sem tilgreint er í 2.gr. Daglegur rekstur er meðal annars húsaleiga, launakostnaður, þóknun vegna bókhaldsþjónustu og annar almennur skrifstofurekstur.
Ferðir, ráðstefnur og fræðslufundir skulu ávallt vera samþykktir af stjórn samtakanna og skal stjórnin útbúa verklagsreglur sem hafðar verða til hliðsjónar þeim samþykktum.
Stjórn ákvarðar breytingar á árgjaldi. Reikningar skulu sendir félagsfólki eigi síðar en 31. janúar ár hvert. Sé árgjaldið ekki greitt innan tveggja mánaða frá gjalddaga, fellur félagsaðild sjálfkrafa niður.
Félagsfólk getur hætt félagsaðild með því að tilkynna það skriflega til stjórnar félagsins eða formanns eða tilkynnt það á fundi í félaginu til bókunar í fundargerð.
Þau sem gerast félagsfólk fyrir 1. september skulu greiða fullt árgjald. Þau sem gerast félagsfólk eftir þann tíma greiða hálft árgjald það árið. Stjórnarfólk og heiðursfélagar greiða ekki félagsgjöld.
6. GR. REIKNINGAR
Reikningstímabil samtakanna er almanaksárið. Reikningar samtakanna skulu endurskoðast af skoðunarmanni reikninga. Endurskoðaða reikninga samtakanna skal leggja fyrir aðalfund til samþykktar. Gjaldkeri annast fjárreiður félagsins í samráði við stjórn.
Launaútreikningur, bókhald og gerð ársreikninga skal vera í höndum viðurkenndrar bókhaldsþjónustu.
Skoðunarmaður reikninga er kjörinn á aðalfundi og situr í tvö ár í senn. Skoðunarmaður reikninga skal vera með þekkingu á bókhaldi og skal hafa þekkingu á uppgjöri.
7. GR. STJÓRN OG STJÓRNARKJÖR
Stjórn fer með æðsta vald í málefnum félagsins milli aðalfunda og er málsvari þess. Hún gætir þess að lögum og samþykktum félagsins sé framfylgt. Stjórn setur starfsreglur um starfsemi á vegum félagsins og tilnefnir nefndir og ráð til að sinna tilteknum verkefnum þegar það á við. Stjórn er sameiginlega ábyrg fyrir öllum fjármálum samtakanna.
Stjórnarkjör fara fram á aðalfundi. Stjórn félagsins skal skipuð fimm fullgildum félögum: formanni, varaformanni, ritara, gjaldkera og meðstjórnanda. Auk þess skulu kosnir tveir varamenn.
Kjörtímabil stjórnar er tvö ár. Annað árið skal kjósa formann, tvo stjórnarmenn og einn varamann en hitt árið tvo stjórnarmenn og einn varamann. Þurfi að kalla varamann í stjórn, skal fyrst kalla þann til sem lengur hefur setið. Formann skal kjósa sérstaklega en að öðru leyti skiptir stjórn með sér verkum og setur sér starfsreglur. Seta í stjórn skerðir ekki kjörgengi til formanns.
Tilkynna skal framboð til embættis formanns skriflega til stjórnar eigi síðar en viku fyrir aðalfund. Um önnur embætti gildir að framboð skal tilkynnt skriflega til stjórnar a.m.k. þremur dögum fyrir aðalfund. Berist ekki framboð í allar trúnaðarstöður í aðdraganda aðalfundar má auglýsa eftir framboðum á fundinum.
Ef fleiri en tvö fá atkvæði í formannskjöri en ekkert þeirra helming greiddra atkvæða skal kosið að nýju milli þeirra tveggja er flest atkvæði hlutu í fyrri kosningu. Einungis félagar skuldlausir við samtökin geta gefið kost á sér til stjórnarsetu. Meirihluti stjórnarfólks skal vera fólk með sjúkdóminn offitu eða aðstandendur þeirra. Varðandi framboð til stjórnar, sjá 8. gr. laga um aðalfund.
Ef stjórnarmaður lætur af stjórnarsetu áður en kjörtímabili hans lýkur og varamaður tekur sæti í hans stað, skal kjörtímabil hins síðarnefnda sem stjórnarmanns aðeins ná yfir þann tíma sem eftir er af stjórnarsetu þess sem hættir. Láti stjórnarmaður af störfum á aðalfundi áður en kjörtímabili hans lýkur skal annar kosinn í hans stað til jafnlangs tíma og eftir er af kjörtímabili þess fyrrnefnda.
8. GR. AÐALFUNDUR
Aðalfund samtakanna skal halda eigi síðar en 1. maí ár hvert. Dagsetning og staðsetning fundarins ákvarðast af stjórn.
Til aðalfundar skal boða með minnst tveggja vikna fyrirvara og skal fundarboð sent með sannanlegum hætti til félagsmanna.
Aðalfundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað.
Aðalfundurinn er æðsta ákvörðunarvald samtakanna og getur, ef ekki er annars getið, með meirihluta atkvæða atkvæðabærra fundarmanna tekið allar þær ákvarðanir sem fyrir fundinum liggja.
Félagsfólk samtakanna telst vera atkvæðabærir fundarmenn. Á aðalfundi ræður einfaldur meirihluti atkvæða. Kosið skal skriflega sé þess óskað. Þá getur fundarmaður lagt fram tillögu sem borin er undir fundinn og þarf 2/3 atkvæða atkvæðabærra fundarmanna til að tillagan fáist samþykkt.
Varðandi breytingatillögur á lögum samtakanna: sjá gr. 10 um breytingar á lögum.
Dagskrá aðalfundar skal vera eftirfarandi:
Kosning fundarstjóra og fundarritara
Skýrsla stjórnar og aðrar skýrslur
Reikningar lagðir fram til samþykktar
Lagabreytingar
Ákvörðun félagsgjalds
Kosning til stjórnar
Kosning skoðunarmanns reikninga
Önnur mál
9. GR. AUKAAÐALFUNDUR
Til aukaaðalfundar skal boða ef stjórn samtakanna þykir ástæða til eða þegar a.m.k. 10 félagar eða minnst 1/3 félagsfólks óska þess. Beiðni um aukaaðalfund skal berast stjórn skriflega og fyrirhuguð dagskrá fundarins fylgja með. Fundurinn skal haldinn eigi síðar en tveimur mánuðum eftir að krafa um það var fram sett. Til aukaaðalfundar skal boða með sama hætti og til aðalfundar.
Aukaaðalfundur telst löglegur sé löglega til hans boðað. Á aukaaðalfundi skulu aðeins rædd og tekin til afgreiðslu þau mál sem fram koma í fundarboði.
10. GR. BREYTINGAR Á LÖGUM
Tillögur stjórnar til breytinga á lögum skulu kynntar félagsfólki í aðalfundarboði eigi síðar en tveimur vikum fyrir boðaða dagsetningu aðalfundar. Tillögu félagsfólks til lagabreytinga má aðeins taka til afgreiðslu á aðalfundi, ef hún hefur borist stjórn fyrir áramót og verið kynnt félagsfólki í fundarboði.
Breyting á lögum öðlast gildi ef 2/3 atkvæðabærra fundarmanna veita breytingartillögunni atkvæði sitt.
11. GR. FÉLAGSSLIT
Ákvörðun um félagsslit samtakanna skal tekin á aðalfundi og þá með samþykki 2/3 greiddra atkvæða og renna hugsanlegar eignir og lausafé til annara góðgerðafélaga á Almannaheillaskrá í samræmi við markmið og tilgang félagsins skv. 2. gr. sem tengjast málefnum fólks með sjúkdóminn offitu og aðstandenda þeirra.
12. GR.
Þar sem ákvæði þessa samþykkta segja ekki til um hvernig með skuli farið skal hlíta ákvæðum laga nr. 110/2021 um félög til almannaheilla, svo og öðrum lagaákvæðum er við geta átt.
Samþykkt á aðalfundi SFO - samtaka fólks með offitu og aðstandenda þeirra þann 4. mars 2024